Saturday, January 21, 2012

Dubai

Jæja þá erum við búnar að eiga 5 frábæra daga hér í Dubai og á morgun höldum við ferðinni áfram til Indlands. Við komum hingað á mánudaginn eftir næstum 7 tíma flug frá Osló (sem virtist vera mun lengra því við fengum ekki að sitja saman í vélinni). Sólveig og Elínborg, frænkur Gunnu sem búa hér í Dubai, komu og sóttu okkur á flugvöllinn og það er búið að vera eins og á 5 stjörnu hóteli að vera hjá þeim!

Við erum búnar að gera ýmislegt, t.d. fórum við í svona eyðimerkur safari sem var ótrúlega skemmtilegt! Við fórum með jeppa út í eyðimörkina og hann brunaði þar upp og niður sandöldurnar. Við vorum með magan í hálsinum allan tímann :) Við enduðum svo í svona tjaldbúðum þar sem við fengum kvöldmat og skemmtun. Þar var líka hægt að fá sér henna tattú, máta arabísk föt ofl.

Við í eyðimörkinni

Sólsetur í eyðimörkinni

Við erum líka búnar að skoða okkur um í nokkrum af RISA mollunum. Það er ekki hægt að láta sér leiðast í Dubai Mall því þar eru flest allar búðir sem við værum til í að versla í eins og H&M, Forever21 ofl. Og ef þig langar ekki að versla þá geturu farið á skauta, í skemmtigarð, skoðað risa fiskabúr eða farið í bíó. Við prófuðum bíóið en þar eru ekki nema 22 salir! Aðeins fleiri en í Kringlubíó... Í mollinu er einnig að finna GULLhraðbanka, svona fyrir þá sem vantar gull strax!! Fyrir utan mollið eru gosbrunnar og á kvöldin eru gosbrunnasýningar. Við sáum eina svoleiðis sýningu, þvílíkt dramatískt með ljósum og laginu "I will always love you" með Whitney Houston. Svo við hliðina á mollinu er stóra stóra byggingin Burj Khalifa sem er hæsta bygging í heimi. Maður fattar eiginlega ekki hversu stór hún er fyrr en maður stendur beint undir henni... Við prófuðum að fara upp á 124. hæð en það er það hæsta sem maður kemst upp í henni. Getum ekki sagt að útsýnið hafi verið slæmt!

Burj Khalifa

útsýnið

Í Mall of the Emirates skoðuðum við Ski Dubai sem er ansi merkilegt! Innanhúss skíðabrekka í miðri eyðimörk.

Allt hérna í Dubai er rosalega nýtt, stórt og flott! Það er mjög skrítið að hugsa til þess að fyrir svona 10 árum var nánast ekkert hérna, nokkur hús og eyðimörk.

En nú er kominn tími til að pakka aftur í bakpokana því á morgun tekur geðveikin í Mumbai við :-)

Gunna og Katrín

Tuesday, January 10, 2012

Undirbúningur - 6 dagar í brottför!

Þá er minna en vika í það að við ferðalangarnir stígum um borð í flugvél Icelandair og yfirgefum kuldann á Íslandi í 100 daga eða svo. Við erum búnar að plana ferðina síðan í sumar og nú er allt að verða tilbúið, vegabréfin með vegabréfsáritunum, nokkur stykki sprautur og næst er það bara að pakka í bakpokana.

Við ætlum að byrja að fljúga til Dubai (með nokkra klst. stoppi í Osló) þar sem við verðum í 5 daga og fáum gistingu hjá frænku Gunnu sem býr þar. Því næst höldum við til Indlands þar sem við höfum pantað tveggja vikna skipulagða ferð. Næsta mánuðinum verður svo eytt í Tælandi, Laos, Kambodíu og Víetnam. Eftir það verður förinni heitið til Ástralíu - með stuttu stoppi í Kuala Lumpur og Singapore. Við verðum í Ástralíu í 3 vikur og ætlunin er að byrja í Melbourne og fara upp austurströndina - upp að kóralrifinu. Því næst förum við til Nýja Sjálands og eyðum viku þar. Svo er það vikuTJILL á Fiji! Og að lokum eyðum við sirka 10 dögum í USA, nánar tiltekið Los Angeles og Seattle þar sem planið er m.a. að fara á tónleika og versla (ef veskið leyfir).

Þetta er allt rosalega spennandi og alveg ótrúlegt að það sé bara alveg að koma að þessu!

Við ætlum að reyna að vera duglegar að setja inn hér á síðuna stöðuna á okkur, hvar við erum og hvað við erum búnar að gera svo endilega fylgist með :)

Þangað til næst!
- Gunna og Katrín